Skuggalegt reikningsdæmi

March 21st, 2013 § 4 comments § permalink

Ljósmynd: Ólafur Larsen

Ragnar Jón heiti ég, yfirleitt kallaður Humi og kenni tónmenntir við Brekkuskóla á Akureyri. Ég er þó ekki menntaður kennari en stefni á að skila ritgerð minni til B.Ed prófs við kennaradeild HA nú í vor. Frá því árið 2007 hef ég með hléum verið viðloðandi kennslu í grunnskólum, fyrst í heimabæ mínum Hafnarfirði, síðan hér á Akureyri með stuttri viðkomu í grunnskólanum í Hrísey. Ég get sagt með fullri alvöru að þetta sé skemmtilegasta og mest gefandi vinna sem ég hef unnið og vildi að ég gæti sinnt þessu einu saman.

Nú hef ég böðlast í gegnum nám í háskóla og er hálfnaður með verkið. Frá því ég hef haft vit á því að pæla í kjarabaráttu kennara hef ég staðið í þeirri trú að umræðan um launakjör kennara væri á villigötum, þetta gæti nú ekki verið svona slæmt. Þangað til fyrir nokkrum vikum hef ég haldist trúr við þessa villu. Eftir að hafa þegið laun sem leiðbeinandi fóru að renna á mig tvær grímur. Kornið er fyllti mælinn féll þegar ég á góðri stundu ræddi kaup og kjör við ágætan vin minn sem er slökkvuliðsmaður. Hann benti mér á hversu mikið hærri laun hann hefði miðað við eiginkonu sína sem er kennari. Áður en lengra er haldið er vert að árétta að ég er ekki á nokkurn hátt mótfallinn því að slökkvuliðsmenn séu vel launaðir og mættu þeir ábyggilega vera á hærri launum.

Samkvæmt kjarasamningi frá 2011 og launatöflu sem gildir fyrir árið 2013er umsjónarkennari (yngri en 35 ára) með 12-19 börn í sínum umsjónarbekk með 306.419 kr í mánaðarlaun fyrir skatt og með útborguð laun upp á 229.507 samkvæmt reiknivél ríkisskattstjóra2 (launafl. 234) og getur hæst komist í launaflokk 241 með því að taka að sér verkefnastjórn og kemst þar með upp í 367.838 kr. í mánaðarlaun eða 264.387 kr. útborgaðar.

Sem stendur er ég á leiðbeinandalaunum þar sem ég er ekki menntaður kennari, 250.153 fyrir skatt sem gefa 197.441 krónur útborgaðar og samkvæmt núgildandi kjarasamningum mun ég hækka upp í 314.434 kr á mánuði eða 234.058 útborgaðar er ég klára nám mitt með meistaragráðu. Samkvæmt þessu þá hækka ég í útborguðum launum um 36.617 kr á mánuði eftir fimm ára háskólanám.

Ef við setjum þetta í samhengi við neysluviðmið Velferðaráðuneytisins3 og ég set inn mínar aðstæður (tveir fullorðnir, tvö börn, þéttbýli utan höfuðborgasvæðis, dæmigerð útgjöld) þá þarf fjölskylda af þessari stærð 505.064 fyrir húsnæðiskostnað til þess að lifa af mánuðinn. Þannig að með húsnæðiskostnaði þyrfti fjölskyldan mín 605.064 útborgaðar til þess að lifa af mánuðinn auk þess að borga af námslánum.

Fer þá reikningsdæmið að verða örlítið skuggalegt, séu fyrrgreind útborguð laun margfölduð með tveimur, þar sem við hjónin erum svo lukkuleg að hafa bæði brennandi áhuga á kennslu, og útkoman verður 468.116 krónur útborgaðar. Drögum það svo frá neysluviðmiðinu og mismunurinn verður 118.948 krónur á mánuði, sem eru 1.427.376 kr (útborgaðar) á ári er upp á vantar til þess að fjölskylda af þessari stærð ætti að geta lifað sómasamlegu lífi.

Það er sárt að þurfa að íhuga hvort starfið sem ég hef valið mun binda fjölskyldu mína í fjárhlekki um ókomna tíð og sjá ekki fram á neina bót mála. Nú nýverið fengu kennarar 4% launahækkun, sem hljómar ágætlega við fyrstu sýn en það breytir þó ekki því að jafnvel 15% af litlu er lítið.

Þó svo að gestum í samkvæmi fjölgi um 200% gæti það þýtt að fyrstu tveir gestirnir hafi gengið inn um hurðina hjá þér. Þrátt fyrir þessa gríðarlegu prósentuhækkun er ekki víst að fjörið hefjist fyrr en fleiri bætist við. Prósentur geta verið misvísandi og að þeim skal farið með gát.

Nú legg ég til að kennarar hætti að vafsast í prósentum og krónum út frá núgildandi samningum, hætti að sitja með heiminn á herðum sér og fari fram á að núgildandi samningi og launatöflu verði vikið af borðinu og samið verði við kennarastéttina upp á nýtt út frá því sem eðlilegt mætti þykja í samræmi við menntunarkröfur, laun í samfélaginu, álag og að minnsta kosti neysluviðmið Velferðaráðuneytis. Meðan enginn bendir á hvernig staðan er mun ekkert skána, skólakerfið dagar uppi með óánægða kennara og litla nýliðun vegna þess hve viðbúin laun eru lág.

Bestu kveðjur,

Ragnar Jón.

————-

Greinin birtist í Akureyri vikublað 21. mars 2013

1  http://ki.is/Pages/1344

2 http://www.rsk.is/einstaklingar/reiknivelar/reiknivel-stadgreidslu/

3 https://www.velferdarraduneyti.is/neysluvidmid/

Where Am I?

You are currently browsing the Uncategorized category at humi.is.