Humi og áfengið

Hvernig ég ákvað að sleppa því alveg að drekka

Þó svo að ég hafi fengið bipolar-genið þá slapp ég við þú-ert-fíkill-genið. Geðsjúkdómar og fíkn virðast fara illa saman*

Hefurðu þá bara aldrei smakkað?

Áfengi spilar stórt hlutverk í sögunni minni. Eins og ábyggilega hjá mörgum. Meðan ég hafði engin ráð til þess að róa taugarnar eða slá á geðhvörfin þá voru áfengi og sígarettur auðveld og lögleg leið til þess slá á ástandið. Á ensku kallað self-medicating.

Reykingar eru viðbjóður. Samt reykti ég og get einhvern veginn ekki álasað mér fyrir það. Það róaði taugarnar og sló á einhverja óeirð.

Þegar er var unglingur byrjaði ég að drekka og fikta við að reykja. Ég blessunarlega slapp að mestu við eiturlyf. Ég reykti ekki gras nema bara tvisvar eða þrisvar, fékk paranoju og fílaði það ekki.

Ég drakk til að vinna á þunglyndinu en þegar ég var manískur gat ég drukkið ótæpilega. Ég misnotaði áfengi líka, drakk bæði oft og endaði nokkrum sinnum í black-out.

Eftir að ég kláraði menntaskóla tók við langt tímabil þar sem ég var manískur. Það var á því tímabili sem ég ætlaði að verða svo ríkur að ég ætti eyju hvar ég gæti sprengt upp skriðdreka með öðrum sprengjuvörpu. Eins og maður gerir.

Á þessum tíma hætti ég að drekka. Mig langaði bara ekki til þess lengur. Þar sem ég var aðallega manískur en ekki þunglyndur þá þurfti ég ekkert að drekka burtu tilfinningarnar og mér fannst eins og ég missti stjórnina þegar ég drakk.

Manía breytist í þunglyndi

Einhversstaðar á þessu tímabili byrja ég að drekka og reykja aftur. Þá var sama uppi á teningnum, ég drakk til að deyfa þunglyndið og reykti til að róa taugarnar. Ég vissi samt alltaf hvað þetta væri vond hugmynd.

Þegar ég hef talað við læknana mína og verið að reyna að fá upp úr þeim einhver törfaráð hafa þeir allir sagt eitthvað eins og: „rólegt og reglubundið líf er það besta sem þú getur gert…“

Fyrst um sinn átti ég mjög erfitt með að meðtaka hvað þeir væru eiginlega að tala um. Raunin hjá mér er að raunverulegar breytingar gerast hægt og rólega, jaðarbreytingar frekar en umbyltur. Oftast.

Fór að ná skikki á lífið

Sama gildir um áfengið. Eftir að ég greindist tókst mér hægt og bítandi að ná einhverju skikki á lífið. Ég djammaði minna og hætti að reykja. Leið betur og var sáttur. Drakk ennþá í hófi.

Það tók mig frekar langan tíma að fá nægan bata til þess að geta séð hvað hefði áhrif á geðsveiflurnar. Líklega á ég enn eftir að sjá helling.

Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að það að verða drukkinn hafði neikvæð áhrif á geðið. Þannig að ég fékk mér bara einn og einn bjór hér og þar. Algerlega eðlilegt, eins og gerist hjá flestu vísitölufólki.

Það sem ég síðan fattaði var að ef ég fæ mér bjór eða vín er eins og það veiki varnirnar hjá mér. Ég sá að að þegar ég leyfði mér einn eða tvo bjóra fylgdi oft dýfa nokkrum dögum eða viku síðar. Svo ég hætti bara alveg.

Ég er ánægður með að hafa farið þessa leið, það væri einhvernvegin öðruvísi að hætta bara að drekka á hörkunni og hætta öllu einn tveir og skot. Það er jafnvel bara doldið manískt. 

Þetta hefur kennt mér að breytingarnar gerast á jaðrinum og það hefur hjálpað mér meira en margt að læra að hlusta á sjálfan mig.
Og Justin Timberlake.


*SÁÁ og AA hjálpar glás af fíklum. Endilega tékka á því.

Ég var samt svo ágætur unglingur. Reykti fyrst pípu. Svo sannfærði ég mig alltaf af þvi að ef ég reykti bara uppvafðar sígarettur þá væri ég ekki byrjaður að reykja (akkúrat) og stærði mig af því að hafa aldrei keypti mér pakka af sígarettum.

Óminnishegri?

Ekki það að það sé nokkuð að því að drekka ekki eða að hætta að drekka.