Sagan af píanóinu

Hvernig ég á endanum greinist með geðhvarfasýki.

Ég á margar sögur af því að vera manískur. Sumar er hræðilegar en aðrar bráðfyndar.

Ein af maníunum áður en ég greindist var frekar fyndin.

Einu sinni sem oft áður var ég að finna gersemar Fjölsmiðjunni.* Þar sá ég glæsilegt píanó sem kostaði heilar 15.000,- krónur. Ég borgaði píanóið og sagðist skyldi koma að sækja það innan skamms.

Örlitlu síðar fékk ég fjóra fílelfda karlmenn til þess að bera gripinn upp á aðra hæð í krúttlega timburhúsinu þar sem við bjuggum. Í stiganum stóðu varla tveir hlið við hlið svo þröngur var hann.  Burðurinn var þrekvirki.

Þegar upp var komið átti sér eftirfarandi samtal sér stað:

Helga: „Hvar ætlarðu að hafa píanóið?”

Humi: „Bara hér”

Helga: (Opnar píanóið og spilar nokkrar nótur)„Já ókei, það er svolítið falskt

Humi: „Já ég stilli það bara”

Helga: „Kanntu það?”

Humi: „Neinei, ég kaupi bara svona stilligræju og læri það á YouTube”

Helga: „Já ok. Vá!”

Píanóstillingar

Við tók tímabil þar sem ég sat einn, löng kvöld, að reyna að stilla píanóið. Þangað til að ég var búinn að slíta þrjá strengi i píanóinu.

Það átti aldrei séns. 

Svo kláraðist manían og við tók þunglyndi. Þá sat píanóið bara í stofunni og starði á mig. Ég vissi fyrir víst að ég gæti aldrei gert við það en vildi ekki díla við það.

Þangað til rétt fyrir jól:

Helga: „Ég held að við þurfum að fara að losa okkur við þetta píanó.”

Humi: „Neiiii. Þetta er svo falleg mubla. Liturinn passar svo vel með öllu hinu.”

Helga: „…þú ert litblindur. Þetta passar ekki inn með öllu hinu.”

Svo leið nokkur tími og ég velti þessu fyrir mér. Ég gat ekki hugsað mér að fá sömu mennina til þess að bera píanóið aftur sömu leið niður stigann. Þarna var ég ennþá niðri í þunglyndi.

Loks kom uppsveifla aftur. Þegar ég fer í maníu fæ ég frábærar hugmyndir og það eru engin vandamál, bara lausnir.

Eitt kvöldið kom Helga heim seint að kvöldi þar sem ég sat á nærbuxunum með sög í hvorri hönd og sagaði píanóið í sundur af miklum móð.

Helga: „Humi… Hvað ertu að gera?” (Varfærnislega)

Humi: „Tjah, þú vildir píanóið út. Ég er að koma því út!“

Helga: „Afhverju ertu að saga það?“

Humi: „Ég ætla að bera það út í pörtum“

Helga: „Jaaaá…”

Það var ekki allt í lagi

Það var þá sem hún áttaði sig á því að það væri ekki allt í lagi. Að það væri eitthvað að. Það voru búin að vera teikn á lofti en hvorki ég né nokkur annar gerði þessa tengingu. Maníurnar mínar höfðu einhvernvegin alltaf náð að sigla undir radarinn, þó svo þær hafi verið oft verið hræðilegar.

Helga fór mjög fallega að því að spyrja mig hvort það gæti nokkuð verið að ég væri með geðhvarfasýki. Það var ekki fyrr en einhverju síðar að ég gat sætt mig við að ég gæti verið veikur á geði. Mínir eigin fordómar gagnvart því að vera geðveikur þvældust fyrir mér.

Þarna var samt fræinu sáð. Í mínu tilfelli er það svo að það er enginn sem þekkir mig betur en mínir nánustu og það er oft þannig að Helga veit að geðið er á hreyfingu áður en ég veit það og getur spurt mig út í hvort ég haldi að eitthvað sé að gerast. Þannig að ég er búinn að læra það á löngum tíma að hlusta á þá sem standa mér næst.

Píanóið fór á haugana. Í pörtum. Manían kláraðist.

Í dag á ég annað píanó og hef lofað sjálfum mér að stilla það hvorki né saga.  Bara að spila á það. Lífið er gott.


*Maníunum mínum fylgdi oft hömlulaus ruslsöfnun. Einu sinni ætlaði ég mér að smíða mér hollenskt hjól með stórri körfu framan við stýrið. Hugmyndin var að hjóla um hverfið og safna saman börnum til þess að skutla á leikskólann með krakkanum mínum. Þá voru amk. 7 hjólhræ í garðinum. Ekkert varð úr hjolasmíðinni. Öðru sinni varu 14 limlestir prentarar í kjallaranum.

Það var svo falskt að það þrítónaði á hverri nótu. Hljómaði eins og særður mávur í Hitchcock mynd. Átti aldrei séns.

Hvernig líður mér?

Að koma orðum að því hvernig sé að vera þunglyndur?

Þunglyndið mitt er frekar reglubundið. Ég veit að það kemur á tveggja til þriggja mánaða fresti og klárast á 3-4 dögum.

Það heyrir til undantekninga að það sé triggerað af áföllum eða ytri aðstæðum. 

Ég er stundum spurður að því hvernig þunglyndið sé. Sem er fínt, Það hjálpar mér að líta inn á við. 

Stundum er það líka erfitt, af því að ég veit oft ekkert hvernig mér líður.

En svarið er yfirleitt tvíþætt, annars vegar hvernig ég upplifi ástandið innra með mér og svo reyni ég að finna einhver orð sem passa.

Fjólublátt flauelsherbergi

Ég upplifi þunglyndið oftast sem áferð og lit*. Eðlilegt ástand er þannig að innan í mér er herbergi sem er hvítmálað og parketlagt. Þunglyndið er oftast þannig að það sé búið að draga fyrir gluggana, veggfóðra með dökkfjólubláu riffluðu flaueli og teppaleggja. Ég get rennt fingrunum eftir veggnum og fundið áferðina í huganum. Þetta er mismikið og mismunandi áferð eftir því hvernig þunglyndið er.

Svo þarf ég að finna orð sem passa;  hversu félagsfælinn er ég, hversu mikil svartsýni kemur, hvernig kemur kvíðinn fram, hversu mikið get ég svarað símanum eða haldið uppi samræðum. Hversu mikið finnst mér eins og heimurinn fíli mig ekki eða eru einhverjir jafnvel að fylgjast með mér.

Oft þegar ég fer aðeins lengra niður þá finnst mér eins og ég finni ekki orðin sem ég ætla að segja, hugsanirnar séu ekki á sama tempói og talið. Þetta getur verið frekar flókið.

Einu sinni hef ég farið svo djúpt niður að ég fór að sjá fólk sem var ekki á staðnum og litirnir fóru allir að brenglast. Þá varð ég pínu smeykur.

Meðfram af þunglyndinu kemur eiginlega alltaf smá manía. Ég bjó til cv-ið mitt og þessa heimasíðu í nettri hypo-maníu. Manían býr oftast til slikju af ranghugmyndum. Yfirleitt aldrei það mikið að það hafi áhrif af neinu gagni. Oftast fæ ég smá þráhyggju fyrir einhverju, eitthvað verkefni sem ég verð að klára. Í einni lotu var það til dæmis að setja saman og mála star-wars módel.

Manían getur þó samt gert það að verkum að mér finnist ég þurfa að byrgja allt innra með mér og megi ekki segja neinum frá því hvernig mér líður. Þá ríður á að vera búinn að undirbúa sig fyrir þessi tímabil. Hluti af minni rútínu er að láta alltaf vita af því að ég sé á niðurleið og svo að gera niðurtúrinn upp við makann minn. Þá koma þessir hlutir upp og það er auðveldara að vinna úr þeim.

Suicidal herpes?

Sjálfsmorðshugsanir eru svona eins og herpes, í mínu tilfelli allavegana. Þegar þú hefur einu sinni fengið frunsu þá fylgir það þér það sem eftir er. Svartur hundur sem þú losnar ekki við.

Í þessum þunglyndislotum koma þessar hugsanir. Reyndar eins og marga aðra daga. Mér tekst þó yfirleitt að taka á móti því blíðlega og segja við sjálfan mig eitthvað á þessa leið „Nei, nei við skulum ekki gera það“ eða „Nei, nei við erum að labba í Kringluna við skulum bara halda því áfram“Ég æfi mig í að svara þessum hugmyndum blíðlega og ýta þeim þannig frá.

Það er frekar mikilvægt fyrir mig að fylgjast með hvernig herbergið mitt er veggfóðrað og hvernig það er að breytist. Þá get ég sett einhver orð á það. Það er líka mikilvægt fyrir þá sem standa mér næst að ég geti lýst því hvað sé að gerast. Þeim mun meira sem ég held utanum líðanina og get jafnvel skrásett hvernig mér líður er ég betur í stakk búinn að mæta næstu lotu.

Hvernig er þitt veggfóður á litinn?


*Ég upplifi svona óhlutbundna hluti sjaldnast í lit, ég er litblindur.

Ég hef enga hugmynd um hvað fjólublár er, hann er yfirleitt bara blár fyrir mér. Sem gerir þetta eiginlega pínu fyndið

Stundum er líka best að mæta þessu með smá húmor er mögulegt er „Nei, nei það er ekki nógu hátt fall neðan af efri hæðinni í Kringlunni…”

Skömmin

Maður er ekki eðlilegur nema maður sé skrítinn

Í dag er lífið afskaplega ljúft. Mér hefur tekist að koma málum fyrir þannig að þunglyndi og manía hafa viðráðanleg áhrif. Fara samt aldrei alveg.

Þó svo að allt gangi vel er samt púki sem aldrei fer. Skömmin á það til að hvísla í eyrað á mér og oftast þegar ég síst býst við því. 

Stundum, þá á heilinn það til að rifja upp eitthvað sem ég gerði þegar ég var lasinn. Eitthvað sem ég réði ekkert við og get ekkert gert í núna. 

En fyrir mér er skömmin eðlileg. Um leið og hún verður óeðlileg eða afbrygðileg á ég miklu erfiðara með að ráða við hana. Hún er eðlilegur fylgifiskur þess að ég hef ekki alltaf farið beinu leiðina í lífinu eða ráðið fyllilega við aðstæður.

Ráðið við skömminni er að fyrirgefa sjálfum mér. Það gerist með sjálfsmildi og tíma. Tala um hlutina og þegar minningarnar koma upp að mæta þeim bliðlega. „Ég gat ekki betur“, „þetta var nú jafnvel kannski pínu fyndið“ eða „þetta er allt í lagi, pælum í þessu seinna.“

Stundum þarf líka að biðjst afsökunar. Þá þarf ég bara að minna mig á að mér þyki leitt hvernig ég hegðaði mér en ég var lasinn og gat ekki betur. Ef ég hefði getað betur þá hefði ég gert hlutina öðruvísi. Það að taka ábyrgð hjálpar mér að skila skömminni frá mér og líða betur.

Ég held samt að þetta muni alltaf poppa upp, Þess vegna þarf ég að sættast við skömmina, eins furðulegt og það hljómar. 

Stundum skammast ég mín líka fyrir það hvernig ég er. Ég þarf að vera frá vinnu stundum og ég fer stundum heim áður en partíið er búið eða vel  að vera ekki með. Stundum er ég bara öðruvísi. Verð að bera virðingu fyrir því að vera lasinn. Það er frávik frá normi.

Besta ráðið við því er að sætta mig við það að ég sé öðruvísi og þurfi að hegða mér eftir því.  Alveg eins og sykursjúkir borða ekki sykur eða alkahólistar drekka ekki áfengi.

Eldri bróðir minn á vin sem var alltaf algerlega trúr sjálfum sér. Frábært en frekar skrítinn.  Þegar ég var smátralli, sennilega 6 ára spurði ég hann afhverju hann væri eiginlega svona skrítinn?

Hann snéri sér að mér, lækkaði sig aðeins og sagði:

„Maður er ekki eðlilegur nema maður sé skrítinn.“

Humi og áfengið

Hvernig ég ákvað að sleppa því alveg að drekka

Þó svo að ég hafi fengið bipolar-genið þá slapp ég við þú-ert-fíkill-genið. Geðsjúkdómar og fíkn virðast fara illa saman*

Hefurðu þá bara aldrei smakkað?

Áfengi spilar stórt hlutverk í sögunni minni. Eins og ábyggilega hjá mörgum. Meðan ég hafði engin ráð til þess að róa taugarnar eða slá á geðhvörfin þá voru áfengi og sígarettur auðveld og lögleg leið til þess slá á ástandið. Á ensku kallað self-medicating.

Reykingar eru viðbjóður. Samt reykti ég og get einhvern veginn ekki álasað mér fyrir það. Það róaði taugarnar og sló á einhverja óeirð.

Þegar er var unglingur byrjaði ég að drekka og fikta við að reykja. Ég blessunarlega slapp að mestu við eiturlyf. Ég reykti ekki gras nema bara tvisvar eða þrisvar, fékk paranoju og fílaði það ekki.

Ég drakk til að vinna á þunglyndinu en þegar ég var manískur gat ég drukkið ótæpilega. Ég misnotaði áfengi líka, drakk bæði oft og endaði nokkrum sinnum í black-out.

Eftir að ég kláraði menntaskóla tók við langt tímabil þar sem ég var manískur. Það var á því tímabili sem ég ætlaði að verða svo ríkur að ég ætti eyju hvar ég gæti sprengt upp skriðdreka með öðrum sprengjuvörpu. Eins og maður gerir.

Á þessum tíma hætti ég að drekka. Mig langaði bara ekki til þess lengur. Þar sem ég var aðallega manískur en ekki þunglyndur þá þurfti ég ekkert að drekka burtu tilfinningarnar og mér fannst eins og ég missti stjórnina þegar ég drakk.

Manía breytist í þunglyndi

Einhversstaðar á þessu tímabili byrja ég að drekka og reykja aftur. Þá var sama uppi á teningnum, ég drakk til að deyfa þunglyndið og reykti til að róa taugarnar. Ég vissi samt alltaf hvað þetta væri vond hugmynd.

Þegar ég hef talað við læknana mína og verið að reyna að fá upp úr þeim einhver törfaráð hafa þeir allir sagt eitthvað eins og: „rólegt og reglubundið líf er það besta sem þú getur gert…“

Fyrst um sinn átti ég mjög erfitt með að meðtaka hvað þeir væru eiginlega að tala um. Raunin hjá mér er að raunverulegar breytingar gerast hægt og rólega, jaðarbreytingar frekar en umbyltur. Oftast.

Fór að ná skikki á lífið

Sama gildir um áfengið. Eftir að ég greindist tókst mér hægt og bítandi að ná einhverju skikki á lífið. Ég djammaði minna og hætti að reykja. Leið betur og var sáttur. Drakk ennþá í hófi.

Það tók mig frekar langan tíma að fá nægan bata til þess að geta séð hvað hefði áhrif á geðsveiflurnar. Líklega á ég enn eftir að sjá helling.

Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að það að verða drukkinn hafði neikvæð áhrif á geðið. Þannig að ég fékk mér bara einn og einn bjór hér og þar. Algerlega eðlilegt, eins og gerist hjá flestu vísitölufólki.

Það sem ég síðan fattaði var að ef ég fæ mér bjór eða vín er eins og það veiki varnirnar hjá mér. Ég sá að að þegar ég leyfði mér einn eða tvo bjóra fylgdi oft dýfa nokkrum dögum eða viku síðar. Svo ég hætti bara alveg.

Ég er ánægður með að hafa farið þessa leið, það væri einhvernvegin öðruvísi að hætta bara að drekka á hörkunni og hætta öllu einn tveir og skot. Það er jafnvel bara doldið manískt. 

Þetta hefur kennt mér að breytingarnar gerast á jaðrinum og það hefur hjálpað mér meira en margt að læra að hlusta á sjálfan mig.
Og Justin Timberlake.


*SÁÁ og AA hjálpar glás af fíklum. Endilega tékka á því.

Ég var samt svo ágætur unglingur. Reykti fyrst pípu. Svo sannfærði ég mig alltaf af þvi að ef ég reykti bara uppvafðar sígarettur þá væri ég ekki byrjaður að reykja (akkúrat) og stærði mig af því að hafa aldrei keypti mér pakka af sígarettum.

Óminnishegri?

Ekki það að það sé nokkuð að því að drekka ekki eða að hætta að drekka.

Skemmtilegt á morgun

Það er mismunandi hvernig börnin skilja það að vera þunglyndur.

Humi: „Svo gerum við kannski eitthvað skemmtilegt á morgun“

Sölvi: „Já, hvernig skemmtilegt?“

Humi: „Bara, kannski fara í Klifurhúsið eða eitthvað. En ég get samt ekki lofað neinu, þú skilur það alveg er það ekki?“

Sölvi: „Jú, Þegar þú ert svona pínu ruglaður í hausnum þá veistu ekki hvernig þú verður á morgun“

Humi: „Einmitt“

Sölvi: „En ef við værum með Dr. Strange þá væri þetta ekkert mál, þá vissum við alveg hvernig þú værir á morgun!“

Humi: „Rétt“

Þunglyndi er eins og veðrið

Sannleikurinn er sá að þunglyndi hjá mér hefur sjaldnast verið „triggerað“ af ytri aðstæðum.*

Yfirleitt er raunin sú að þunglyndið er eins og veðrið, það er bara er.

„Þetta verður allt í lagi, þetta líður hjá”


*Auðvitað kemur það samt fyrir. Áföll og ytri aðstæður geta haft mjög afdrifarík áhrif á geðið.