Hvernig líður mér?

Að koma orðum að því hvernig sé að vera þunglyndur?

Þunglyndið mitt er almennt frekar reglubundið. Ég veit að það kemur á tveggja til þriggja mánaða fresti og klárast á 3-4 dögum.

Það heyrir til undantekninga að það sé triggerað af áföllum eða ytri aðstæðum. 

Ég er oft spurður að því hvernig þunglyndið sé þá og það skiptið. Sem er mjög gott, því ég læri betur inn á sjálfan mig og það hjálpar mínum nánustu bæði að átta sig á því hvernig ástandið er og hvernig það getur hjálpað.

Stundum er það líka erfitt, af því að ég veit ekkert hvernig mér líður.

En svarið er yfirleitt tvíþætt, annars vegar hvernig ég upplifi ástandið og svo reyni ég að koma orðum á það.

Fjólublátt flauelsherbergi

Ég upplifi þunglyndið oftast í áferð og lit*. Ef eðlilegt ástand er þannig að innan í mér er herbergi sem er hvítmálað og parketlagt þá er þunglyndið oftast þannig að það sé búið að draga fyrir gluggana, veggfóðra með dökkfjólubláu riffluðu flaueli og teppaleggja. Ég get eiginlega rennt fingrunum eftir veggnum og fundið áferðina í huganum.

Svo þarf ég að finna orð sem passa;  hversu félagsfælinn er ég, hversu mikil svartsýni kemur, hvernig kemur kvíðinn fram, hversu mikið get ég svarað símanum eða haldið uppi samræðum. Oft þegar ég fer aðeins lengra niður þá finnst mér eins og ég finni ekki orðin sem ég ætla að segja, hugsanirnar séu ekki á sama tempói og talið. Þetta getur verið frekar flókið.

Meðfram af þunglyndinu kemur eiginlega alltaf smá manía. Ég bjó til cv-ið mitt og þessa heimasíðu í nettri hypo-maníu sem fylgdi þunglyndi. Manían getur búið til slikju af ranghugmyndum. Yfirleitt aldrei það mikið að það hafi áhrif af neinu gagni. Oftast fæ ég smá þráhyggju fyrir einhverju, eitthvað verkefni sem ég verð að klára. Í einni lotu var það til dæmis að setja saman og mála star-wars módel.

Suicidal herpes?

Sjálfsmorðshugsanir eru svona eins og herpes, í mínu tilfelli allavegana. Þegar þú hefur einu sinni fengið frunsu þá fylgir það þér það sem eftir er. Svartur hundur sem þú losnar ekki við.

Í þessum þunglyndislotum koma þessar hugsanir eins og marga aðra daga. Mér tekst þó yfirleitt að taka á móti því blíðlega og segja við sjálfan mig eitthvað á þessa leið „Nei, nei við skulum ekki gera það“ eða „Nei, nei við erum að labba í Kringluna við skulum bara halda því áfram“

Það er frekar mikilvægt fyrir mig að fylgjast með hvernig herbergið mitt er veggfóðrað og hvernig það er að breytist. Þá get ég sett einhver orð á það. 

Hvernig er þitt veggfóður á litinn?


*Ég upplifi svona óhlutbundna hluti sjaldnast í lit, ég er litblindur.

Ég hef enga hugmynd um hvað fjólublár er, hann er yfirleitt bara blár fyrir mér. Sem gerir þetta eiginlega pínu fyndið

Stundum er líka best að mæta þessu með smá húmor er mögulegt er „Nei, nei það er ekki nógu hátt fall neðan af efri hæðinni í Kringlunni…”

Humi og áfengið

Hvernig ég ákvað að sleppa því alveg að drekka

Þó svo að ég hafi fengið þú-ert-geggj-genið þá slapp ég við þú-ert-fíkill-genið. Geðsjúkdómar og fíkn geta líklega verið erfið blanda*.

Hefurðu þá bara aldrei smakkað?

Áfengi spilar stórt hlutverk í sögunni minni. Eins og ábyggilega hjá mörgum. Það er einhvernvegin þannig að meðan ég hafði engin ráð til þess að róa taugarnar eða slá á geðhvörfin þá eru áfengi og sígarettur auðveld og lögleg leið til þess að breyta ástandinu eitthvað. Á ensku kallað self-medicating.

Reykingar eru viðbjóður, illa lyktandi og skemmandi. Samt reykti ég og get einhvern veginn ekki álasað mér fyrir það. Það róaði taugarnar og sló á einhverja óeirð.

Þegar er var unglingur byrjaði ég að drekka og fikta við að reykja. Fyrst um sinn bara afþvi að það var gaman og hinir voru að gera það líka. Þegar ég var kominn í menntaskóla fór geðveikin að hafa áhrif líka.

Ég blessunarlega slapp að mestu við eiturlyf. Ég reykti ekki gras nema bara tvisvar eða þrisvar, fékk paranoju og fílaði það ekki.

Þá drakk ég til að vinna á þunglyndinu en þegar ég var manískur gat ég drukkið og drukkið og alltaf var gaman. Ég samt misnotaði áfengi líka, drakk bæði oft og endaði nokkrum sinnum í black-out.

Eftir að ég kláraði menntaskóla tók við tímabil þar sem ég var manískur lengi. Það var á því tímabili sem ég ætlaði að verða svo ríkur að ég ætti mína eigin eyju hvar ég gæti sprengt upp skriðdreka með öðrum skriðdreka. Eins og maður gerir.

Á þessum tíma hætti ég að drekka. Mig langaði bara ekki til þess lengur. Mín kenning er sú að afþví að ég var aðallega manískur en ekki þunglyndur þá þurfti ég ekkert að drekka burtu tilfinningar og mér fannst eins og ég missti stjórnina þegar ég drakk, það vildi manían alls ekki. 

Manía breytist í þunglyndi

Einhversstaðar á þessu tímabili byrja ég að drekka og reykja aftur. Þá var sama uppi á teningnum, ég drakk til að deyfa þunglyndið og reykti til að róa taugarnar. Ég vissi samt alltaf hvað þetta væri vond hugmynd.

Þegar ég hef talað við læknana mína og verið að reyna að pumpa upp úr þeim einhver törfaráð til þess að batna  hafa þeir allir farið mjög varfærnislega í hlutina og sagt eitthvað í veruna „rólegt og reglubundið líf er það besta sem þú getur gert…“

Fyrst um sinn átti ég mjög erfitt með að meðtaka hvað þeir væru eiginlega að tala um. Raunin hjá mér er að lífið breytist hægt og rólega, jaðarbreytingar frekar en umbyltur. Oftast.

Fór að ná skikki á lífið

Sama gildir um áfengið. Eftir að ég greindist tókst þér hægt og bítandi að ná einhverju skikki á lífið. Ég djammaði minna, hætti að reykja. Leið betur og var sáttur. Drakk ennþá í hófi.

Seinna þegar ég náði enn meira jafnvægi gat ég farið að horfa á lífið og sjá einhver orsakasamhengi. Það tók mig frekar langan tíma að fá nægan báta til þess að geta séð hvað hefði áhrif og hvernig. .

Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að það að verða drukkinn hafði neikvæð áhrif þannig að ég fékk mér bara einn og einn bjór hér og þar. Algerlega eðlilegt og eins og gerist hjá flestu vísitölufólki.

Það sem ég síðan fattaði var að ef ég fæ mér einn bjór er eins og það veiki varnirnar hjá mér. Ég sá að að þegar ég leyfði mér einn eða tvo fylgdi oft dýfa nokkrum dögum síðar. Svo ég hætti bara alveg.

Ég er mjög ánægður með að hafa farið þennan feril, það væri einhvernvegin öðruvísi að hætta bara að drekka og hætta öllu einn tveir og skot. Það er jafnvel bara doldið manískt. En þetta kennir mér að breytingarnar gerast oft á jaðrinum og það hefur hjálpað mér meira en margt að læra að hlusta á sjálfan mig, og Justin Timberlake.


*SÁÁ og AA hjálpar glás af fíklum. Endilega tékka á því.

Ég var samt svo ágætur unglingur. Reykti fyrst pípu. Svo sannfærði ég mig alltaf af þvi að ef ég reykti bara uppvafðar sígarettur þá væri ég ekki byrjaður að reykja (akkúrat) og stærði mig af því að hafa aldrei keypti mér pakka af sígarettum.

Óminnishegri?

Ekki það að það sé nokkuð að því að drekka ekki eða að hætta að drekka.

Skemmtilegt á morgun

Það er mismunandi hvernig börnin skilja það að vera þunglyndur.

Humi: „Svo gerum við kannski eitthvað skemmtilegt á morgun“

Sölvi: „Já, hvernig skemmtilegt?“

Humi: „Bara, kannski fara í Klifurhúsið eða eitthvað. En ég get samt ekki lofað neinu, þú skilur það alveg er það ekki?“

Sölvi: „Jú, Þegar þú ert svona pínu ruglaður í hausnum þá veistu ekki hvernig þú verður á morgun“

Humi: „Einmitt“

Sölvi: „En ef við værum með Dr. Strange þá væri þetta ekkert mál, þá vissum við alveg hvernig þú værir á morgun!“

Humi: „Rétt“

Þunglyndi er eins og veðrið

Sannleikurinn er sá að þunglyndi hjá mér hefur sjaldnast verið „triggerað“ af ytri aðstæðum.*

Yfirleitt er raunin sú að þunglyndið er eins og veðrið, það er bara er.

„Þetta verður allt í lagi, þetta líður hjá”


*Auðvitað kemur það samt fyrir. Áföll og ytri aðstæður geta haft mjög afdrifarík áhrif á geðið.

Sífr

Pottar glamra

Innihald muldrar

Bolurinn skvaldrar

og

tvístrast.