Hvernig líður mér?

Að koma orðum að því hvernig sé að vera þunglyndur?

Þunglyndið mitt er frekar reglubundið. Ég veit að það kemur á tveggja til þriggja mánaða fresti og klárast á 3-4 dögum.

Það heyrir til undantekninga að það sé triggerað af áföllum eða ytri aðstæðum. 

Ég er stundum spurður að því hvernig þunglyndið sé. Sem er fínt, Það hjálpar mér að líta inn á við. 

Stundum er það líka erfitt, af því að ég veit oft ekkert hvernig mér líður.

En svarið er yfirleitt tvíþætt, annars vegar hvernig ég upplifi ástandið innra með mér og svo reyni ég að finna einhver orð sem passa.

Fjólublátt flauelsherbergi

Ég upplifi þunglyndið oftast sem áferð og lit*. Eðlilegt ástand er þannig að innan í mér er herbergi sem er hvítmálað og parketlagt. Þunglyndið er oftast þannig að það sé búið að draga fyrir gluggana, veggfóðra með dökkfjólubláu riffluðu flaueli og teppaleggja. Ég get rennt fingrunum eftir veggnum og fundið áferðina í huganum. Þetta er mismikið og mismunandi áferð eftir því hvernig þunglyndið er.

Svo þarf ég að finna orð sem passa;  hversu félagsfælinn er ég, hversu mikil svartsýni kemur, hvernig kemur kvíðinn fram, hversu mikið get ég svarað símanum eða haldið uppi samræðum. Hversu mikið finnst mér eins og heimurinn fíli mig ekki eða eru einhverjir jafnvel að fylgjast með mér.

Oft þegar ég fer aðeins lengra niður þá finnst mér eins og ég finni ekki orðin sem ég ætla að segja, hugsanirnar séu ekki á sama tempói og talið. Þetta getur verið frekar flókið.

Einu sinni hef ég farið svo djúpt niður að ég fór að sjá fólk sem var ekki á staðnum og litirnir fóru allir að brenglast. Þá varð ég pínu smeykur.

Meðfram af þunglyndinu kemur eiginlega alltaf smá manía. Ég bjó til cv-ið mitt og þessa heimasíðu í nettri hypo-maníu. Manían býr oftast til slikju af ranghugmyndum. Yfirleitt aldrei það mikið að það hafi áhrif af neinu gagni. Oftast fæ ég smá þráhyggju fyrir einhverju, eitthvað verkefni sem ég verð að klára. Í einni lotu var það til dæmis að setja saman og mála star-wars módel.

Manían getur þó samt gert það að verkum að mér finnist ég þurfa að byrgja allt innra með mér og megi ekki segja neinum frá því hvernig mér líður. Þá ríður á að vera búinn að undirbúa sig fyrir þessi tímabil. Hluti af minni rútínu er að láta alltaf vita af því að ég sé á niðurleið og svo að gera niðurtúrinn upp við makann minn. Þá koma þessir hlutir upp og það er auðveldara að vinna úr þeim.

Suicidal herpes?

Sjálfsmorðshugsanir eru svona eins og herpes, í mínu tilfelli allavegana. Þegar þú hefur einu sinni fengið frunsu þá fylgir það þér það sem eftir er. Svartur hundur sem þú losnar ekki við.

Í þessum þunglyndislotum koma þessar hugsanir. Reyndar eins og marga aðra daga. Mér tekst þó yfirleitt að taka á móti því blíðlega og segja við sjálfan mig eitthvað á þessa leið „Nei, nei við skulum ekki gera það“ eða „Nei, nei við erum að labba í Kringluna við skulum bara halda því áfram“Ég æfi mig í að svara þessum hugmyndum blíðlega og ýta þeim þannig frá.

Það er frekar mikilvægt fyrir mig að fylgjast með hvernig herbergið mitt er veggfóðrað og hvernig það er að breytist. Þá get ég sett einhver orð á það. Það er líka mikilvægt fyrir þá sem standa mér næst að ég geti lýst því hvað sé að gerast. Þeim mun meira sem ég held utanum líðanina og get jafnvel skrásett hvernig mér líður er ég betur í stakk búinn að mæta næstu lotu.

Hvernig er þitt veggfóður á litinn?


*Ég upplifi svona óhlutbundna hluti sjaldnast í lit, ég er litblindur.

Ég hef enga hugmynd um hvað fjólublár er, hann er yfirleitt bara blár fyrir mér. Sem gerir þetta eiginlega pínu fyndið

Stundum er líka best að mæta þessu með smá húmor er mögulegt er „Nei, nei það er ekki nógu hátt fall neðan af efri hæðinni í Kringlunni…”