Sagan af píanóinu

Hvernig ég á endanum greinist með geðhvarfasýki.

Ég á margar sögur af því að vera manískur. Sumar er hræðilegar en aðrar bráðfyndar.

Ein af maníunum áður en ég greindist var frekar fyndin.

Einu sinni sem oft áður var ég að finna gersemar Fjölsmiðjunni.* Þar sá ég glæsilegt píanó sem kostaði heilar 15.000,- krónur. Ég borgaði píanóið og sagðist skyldi koma að sækja það innan skamms.

Örlitlu síðar fékk ég fjóra fílelfda karlmenn til þess að bera gripinn upp á aðra hæð í krúttlega timburhúsinu þar sem við bjuggum. Í stiganum stóðu varla tveir hlið við hlið svo þröngur var hann.  Burðurinn var þrekvirki.

Þegar upp var komið átti sér eftirfarandi samtal sér stað:

Helga: „Hvar ætlarðu að hafa píanóið?”

Humi: „Bara hér”

Helga: (Opnar píanóið og spilar nokkrar nótur)„Já ókei, það er svolítið falskt

Humi: „Já ég stilli það bara”

Helga: „Kanntu það?”

Humi: „Neinei, ég kaupi bara svona stilligræju og læri það á YouTube”

Helga: „Já ok. Vá!”

Píanóstillingar

Við tók tímabil þar sem ég sat einn, löng kvöld, að reyna að stilla píanóið. Þangað til að ég var búinn að slíta þrjá strengi i píanóinu.

Það átti aldrei séns. 

Svo kláraðist manían og við tók þunglyndi. Þá sat píanóið bara í stofunni og starði á mig. Ég vissi fyrir víst að ég gæti aldrei gert við það en vildi ekki díla við það.

Þangað til rétt fyrir jól:

Helga: „Ég held að við þurfum að fara að losa okkur við þetta píanó.”

Humi: „Neiiii. Þetta er svo falleg mubla. Liturinn passar svo vel með öllu hinu.”

Helga: „…þú ert litblindur. Þetta passar ekki inn með öllu hinu.”

Svo leið nokkur tími og ég velti þessu fyrir mér. Ég gat ekki hugsað mér að fá sömu mennina til þess að bera píanóið aftur sömu leið niður stigann. Þarna var ég ennþá niðri í þunglyndi.

Loks kom uppsveifla aftur. Þegar ég fer í maníu fæ ég frábærar hugmyndir og það eru engin vandamál, bara lausnir.

Eitt kvöldið kom Helga heim seint að kvöldi þar sem ég sat á nærbuxunum með sög í hvorri hönd og sagaði píanóið í sundur af miklum móð.

Helga: „Humi… Hvað ertu að gera?” (Varfærnislega)

Humi: „Tjah, þú vildir píanóið út. Ég er að koma því út!“

Helga: „Afhverju ertu að saga það?“

Humi: „Ég ætla að bera það út í pörtum“

Helga: „Jaaaá…”

Það var ekki allt í lagi

Það var þá sem hún áttaði sig á því að það væri ekki allt í lagi. Að það væri eitthvað að. Það voru búin að vera teikn á lofti en hvorki ég né nokkur annar gerði þessa tengingu. Maníurnar mínar höfðu einhvernvegin alltaf náð að sigla undir radarinn, þó svo þær hafi verið oft verið hræðilegar.

Helga fór mjög fallega að því að spyrja mig hvort það gæti nokkuð verið að ég væri með geðhvarfasýki. Það var ekki fyrr en einhverju síðar að ég gat sætt mig við að ég gæti verið veikur á geði. Mínir eigin fordómar gagnvart því að vera geðveikur þvældust fyrir mér.

Þarna var samt fræinu sáð. Í mínu tilfelli er það svo að það er enginn sem þekkir mig betur en mínir nánustu og það er oft þannig að Helga veit að geðið er á hreyfingu áður en ég veit það og getur spurt mig út í hvort ég haldi að eitthvað sé að gerast. Þannig að ég er búinn að læra það á löngum tíma að hlusta á þá sem standa mér næst.

Píanóið fór á haugana. Í pörtum. Manían kláraðist.

Í dag á ég annað píanó og hef lofað sjálfum mér að stilla það hvorki né saga.  Bara að spila á það. Lífið er gott.


*Maníunum mínum fylgdi oft hömlulaus ruslsöfnun. Einu sinni ætlaði ég mér að smíða mér hollenskt hjól með stórri körfu framan við stýrið. Hugmyndin var að hjóla um hverfið og safna saman börnum til þess að skutla á leikskólann með krakkanum mínum. Þá voru amk. 7 hjólhræ í garðinum. Ekkert varð úr hjolasmíðinni. Öðru sinni varu 14 limlestir prentarar í kjallaranum.

Það var svo falskt að það þrítónaði á hverri nótu. Hljómaði eins og særður mávur í Hitchcock mynd. Átti aldrei séns.