Skömmin

Maður er ekki eðlilegur nema maður sé skrítinn

Í dag er lífið afskaplega ljúft. Mér hefur tekist að koma málum fyrir þannig að þunglyndi og manía hafa viðráðanleg áhrif. Fara samt aldrei alveg.

Þó svo að allt gangi vel er samt púki sem aldrei fer. Skömmin á það til að hvísla í eyrað á mér og oftast þegar ég síst býst við því. 

Stundum, þá á heilinn það til að rifja upp eitthvað sem ég gerði þegar ég var lasinn. Eitthvað sem ég réði ekkert við og get ekkert gert í núna. 

En fyrir mér er skömmin eðlileg. Um leið og hún verður óeðlileg eða afbrygðileg á ég miklu erfiðara með að ráða við hana. Hún er eðlilegur fylgifiskur þess að ég hef ekki alltaf farið beinu leiðina í lífinu eða ráðið fyllilega við aðstæður.

Ráðið við skömminni er að fyrirgefa sjálfum mér. Það gerist með sjálfsmildi og tíma. Tala um hlutina og þegar minningarnar koma upp að mæta þeim bliðlega. „Ég gat ekki betur“, „þetta var nú jafnvel kannski pínu fyndið“ eða „þetta er allt í lagi, pælum í þessu seinna.“

Stundum þarf líka að biðjst afsökunar. Þá þarf ég bara að minna mig á að mér þyki leitt hvernig ég hegðaði mér en ég var lasinn og gat ekki betur. Ef ég hefði getað betur þá hefði ég gert hlutina öðruvísi. Það að taka ábyrgð hjálpar mér að skila skömminni frá mér og líða betur.

Ég held samt að þetta muni alltaf poppa upp, Þess vegna þarf ég að sættast við skömmina, eins furðulegt og það hljómar. 

Stundum skammast ég mín líka fyrir það hvernig ég er. Ég þarf að vera frá vinnu stundum og ég fer stundum heim áður en partíið er búið eða vel  að vera ekki með. Stundum er ég bara öðruvísi. Verð að bera virðingu fyrir því að vera lasinn. Það er frávik frá normi.

Besta ráðið við því er að sætta mig við það að ég sé öðruvísi og þurfi að hegða mér eftir því.  Alveg eins og sykursjúkir borða ekki sykur eða alkahólistar drekka ekki áfengi.

Eldri bróðir minn á vin sem var alltaf algerlega trúr sjálfum sér. Frábært en frekar skrítinn.  Þegar ég var smátralli, sennilega 6 ára spurði ég hann afhverju hann væri eiginlega svona skrítinn?

Hann snéri sér að mér, lækkaði sig aðeins og sagði:

„Maður er ekki eðlilegur nema maður sé skrítinn.“

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *